Jóhann Magnús Bjarnason
Jóhann Magnús Bjarnason fæddist að Meðalnesi í Fellum á Fljótsdalshéraði 24. maí árið 1866.
Níu ára gamall fluttist hann vestur um haf, þar sem foreldrar hans námu land í fylkinu Nova Scotia í Kanada. Jóhann gekk í skóla í Winnipeg og útskrifaðist sem kennari árið 1900. Varð kennslan hans ævistarf og þótti hann góður kennari.
Samhliða kennslunni var Jóhann afkastamikill og fjölhæfur rithöfundur, en eftir hann liggja fjölmörg kvæði, greinar um bókmenntir og menningarmál, yfir 20 leikrit, þrjár langar skáldsögur, fjöldi smásagna og um eitt hundrað ævintýri. Voru bækur hans gefnar út í Kanada, á Íslandi og í Danmörku. Nýlega voru bækurnar Eiríkur Hansson (The Young Icelander: The story of an immigrant in Nova Scotia and Manitoba) og Vornætur á Elgshæðum (Errand Boy in the Mooseland Hills) þýddar á ensku og seldust vel. Af þekktum verkum eftir Jóhann má nefna sögurnar Brasilíufararnir, Vornætur á Elgshæðum, Eiríkur Hansson og kvæðin Litla stúlkan með ljósu flétturnar tvær og Grímur frá Grund. Frá árinu 1902 allt fram til 1945 er hann lést hélt Jóhann dagbók sem hann taldi með því besta sem hann hafði skrifað og vonaði að hún yrði gefin út eftir sinn dag. Eru dagbækur hans geymdar í Landsbókasafni Íslands.
Jóhann lést árið 1945 og hafði þá aldrei borið Ísland augum eftir að hann fyrst fór þaðan.